Erlent

Bjargaði björgunarmanni sem fékk þyrluspaða í höfuðið

Samskonar björgunarþyrla og var notuð við björgunaraðgerðina.
Samskonar björgunarþyrla og var notuð við björgunaraðgerðina.
Herlækninum Jeremy Kilburn hefur líklega ekki grunað hvað væri í vændum þegar hann var á göngu í skóginum Shasta-Trinity í Bandaríkjunum á dögunum. Hundurinn hans gekk í veg fyrir hann með þeim afleiðingum að hann féll illa og fótbrotnaði. Þá voru góð ráð dýr, en samkvæmt AP fréttastofunni var kallað eftir þyrluaðstoð svo það væri hægt að flytja Kilburn á sjúkrahús.

Og það stóð ekki á björgunarsveitarmönnunum því skömmu síðar kom þyrlan. Hún lenti skammt frá Kilburn, en aðstæður voru nokkuð slæmar fyrir þyrluna. Björgunarmaðurinn Tony Stanley ætlaði þá að klifra út úr faratækinu en þyrluspaðinn slóst þá í höfuð hans þannig hann féll harkalega til jarðar. Kilburn sá strax hvað gerðist og skreið fótbrotinn til Stanleys sem hlaut alvarlega höfuðáverka, eins og hægt er að geta sér til um, fái maður þyrluspaða í höfuðið.

Kilburn, sem er vanur herlæknir hjá bandaríska flughernum tók sig til og kom túbu fyrir í hálsi Stanleys sem blæddi mikið. Þannig tókst Kilburn að halda öndunarveginum opnum, en Stanley var án meðvitundar þegar þetta átti sér stað. Kilburn reyndi líka að þrýsta á sárið á höfði Stanleys til þess að varna að hann missti meira blóð.

Félagar Stanleys komu svo að og báru mennina í þyrluna. Kilburn segir að Stanley hafi verið með einhverja meðvitund í þyrlunni, meðal annars sett upp þumalinn þegar Kilburn spurði hvernig hann hefði það.

Samkvæmt fréttavef AP er ekki vitað um ástand Stanleys eftir slysið, en Kilburn þurfti að fara í gifs vegna fótbrotsins. Kilburn segist raunar vera með samviskubit yfir þessu öllu saman, „þetta hefði aldrei gerst ef ég hefði ekki fótbrotnað," sagði hann í viðtali við AP fréttastofuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×