Lífið

Klúri trúðurinn á konu á Íslandi

BBI skrifar
Trúðurinn Wally hefur skemmt Reykvíkingum síðustu ár með aðdáunarverðum sirkusatriðum og klúrum bröndurum. Á bak við karakterinn er Ástralinn Lee Nelson sem er sprenglærður sirkuslistamaður og rekur sinn eigin sirkus milli þess sem hann stígur upp á fjögurra metra háan tréstiga og heldur gúmmíkjúkling á lofti fyrir ferðamenn og borgarbúa.

Lee Nelson kom fyrst til landsins árið 2006. Hann er hér enn og verður um alla framtíð að eigin sögn, enda á hann hér konu og börn. Lee hefur verið götulistamaður frá árinu 1996 en að eigin sögn dreymdi hann um það frá því hann var ungur. Hann er með gráðu í sirkuslist frá skólanum Circoarts á Nýja Sjálandi. Gráðuna fékk hann árið 2001 eftir þriggja ára nám.

Sem trúðurinn Wally hefur hann ferðast til yfir 100 landa í heiminum með sýningu sína. Hann hefur unnið fyrir fjölda viðskiptavina, m.a. komið fram í auglýsingum í Suður Afríku, og sýnt fyrir BMW, Coca Cola og hvern einasta banka Íslands. Þó hann hafi verið búsettur hér á Íslandi síðan árið 2006 er þetta fyrsta sumarið sem hann eyðir öllu hér án þess að fljúga út með sýninguna.

Sýningar Wally í miðborg Reykjavíkur vekja alltaf nokkra athygli. Umhverfis hans þyrpist fólk og hlustar flissandi á hann segja klámfengna brandara og niðurlægja áhorfendur milli þess sem hann klífur upp fjögurra metra háan frístandandi stiga og heldur jafnvægi eða framkvæmir önnur sirkusatriði.

Á veturna rekur Lee Sirkus Íslands. Sirkusinn samanstendur af 10 íslenskum einstaklingum sem Lee hefur sjálfur þjálfað að mestu leyti. Sirkusinn hefur gert þrjár sirkussýningar í fullri lengd og vinnur nú að þeirri fjórðu. Mestur tími trúðarins fer í sirkusinn á veturna.

Hér má sjá brot úr sýningu Wally.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.