Erlent

Er verið að eitra fyrir afgönskum skólastúlkum?

BBI skrifar
Skólastúlkur í Afganistan.
Skólastúlkur í Afganistan. Mynd/AFP
Skólastelpur í Afganistan hafa ítrekað veikst og verið sendar heim úr skóla síðustu mánuði. Grunur leikur á um að eitrað hafi verið fyrir þeim.

Stúlkurnar lýsa allar sömu einkennum: ógleði, sljóleika og höfuðverk. En þó rannsóknir hafi farið fram og sýni tekin úr drykkjarvatni og af stúlkunum sjálfum hafa engin grunsamleg efni fundist. Eftir að hafa verið fluttar ælandi á sjúkrahús eru þær heilar heilsu nokkrum tímum síðar og sendar heim.

Margir gruna Talibana um að standa fyrir þessum undarlegu veikindum. Talíbanar hafa ekki farið dult með andúð sína á því að stúlkur sæki bóklegt nám. Afganska ríkisstjórnin sakaði meira að segja Talíbana opinberlega um að standa fyrir eitrunum þann 6. júní síðastliðinn. Talíbanar hafa neitað þessum ásökunum og auk þess efast margir um að Talíbanar séu nógu fágaðir til að eitra fyrir einhverjum án þess að um það sjáist nein merki.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin telur að ekki hafi verið um neins konar eitranir að ræða. Það sem olli veikindunum að þeirra mati var nokkurs konar múgæsingur eða hóp-móðursýki (e. mass hysteria). Því fylgir mikið álag að alast upp við stríðsástand. Múgæsingur af þessum toga er þekkt fyrirbæri og gæti verið skýringin. Hann orsakast helst í ungum stúlkum og konum. Hins vegar er varhugavert að slá því föstu að sálrænir kvillar valdi einkennum stúlknanna ef í raun hefur verið eitrað fyrir þeim.

Málið er enn mikil ráðgáta en hér má lesa ítarlega umfjöllun The Time.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×