Erlent

Sagður hafa pyntað eiginkonu sína í áratug

Myndin var tekin af Peter skömmu eftir að hann var handtekinn.
Myndin var tekin af Peter skömmu eftir að hann var handtekinn.
Það var 2. júlí síðastliðinn sem Stephanie Lizon haltraði til nágranna síns og bað hann um að skjóta skjólhúsi yfir sig. Ástæðan var sú að eiginmaður hennar, Peter Lizon, á að hafa haldið henni nauðugri í um áratug, hlekkjað hana við rúm, brotið á henni fótinn með verkfæri og brennt hana með heitri pönnu og straujárni.

Lögreglustjórinn í Jackson sýslu í Vancouver, þar sem hjónin eru búsett, segir málið það andstyggilegasta sem hann hafi nokkurn tímann þurfti að kljást við.

Peter, sem hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald, er sakaður um að hafa hlekkjað konu sína við rúm og beinlínis pyntað hana. Meðal annars er konan með brunasár á brjósti eftir straujárn. Hún er einnig með brunaáverka á baki sem eru líklega eftir sjóðandi heita pönnu.

Á meðan Stephanie var hlekkjuð í rúmi sínu á Peter að hafa nauðgað henni, gert hana ólétta og látið hana fæða í rúmi sínu, þar sem hún lá hlekkjuð. Í fyrra skiptið sem hún eignaðist barn, reyndist það fætt andvana. Seinna barn þeirra hjóna lifði af og er eins árs gamalt í dag.

Fréttastofa AP greinir frá því að vitni haldi því fram að ofbeldið gegn eiginkonu Peters hafi verið af ýmsum toga, og hrottalegt. Meðal annars var hún látin krjúpa fyrir framan Peter í hvert skiptið sem hún gekk inn í sama herbergi og hann.

Lögmaður Peters neitar þessum ásökunum alfarið og vill meina að málið hafi verið ýkt stórlega. Peter verður leiddur fyrir dómara á föstudaginn og þá ræðst framhald málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×