Erlent

Mótmælin harðna á Spáni

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Spænska óeirðalögreglan beitti í nótt táragasi gegn mótmælendum sem hafa gengið um götur höfuðborgarinnar í landinu síðasta sólarhringinn og krafið þarlend stjórnvöld um að falla frá niðurskurðaráætlunum.

Mörg hundruð Spánverjar héldu út í gær til að mótmæla niðurskurðinum sem felur meðal annars í sér launalækkun opinberra starfsmanna og hækkun skatta en aðgerðirnar eru sagðar bitna einna helst á millistéttarfólki.

„Nú er þetta ekki eins og á síðasta ári þegar við gengum friðsamlega um göturnar, því nú spilar svo margt fleira inní. Til dæmis var fólk beinlínis móðgað í gær í þinginu. Svo ég held að þetta sé mikilvægur vendipunktur," segir mótmælandi á Spáni.

Mótmælin stóðu yfir í alla nótt og héldu áfram í dag. Þau hafa verið allt annað en hljóðlát og mikið um stympingar. Óeirðalögregla beitti táragasi á mótmælendur í nótt en hún hefur sökuð um að hafa sýnt of mikla hörku.

„Einn mótmælandi var handtekinn og laminn í klessu af óeirðalögreglunni. Lögreglumaðurinn var beinlínis að kýla hann ítrekað í smettið. Reyndar missti einn óeirðarlögreglumaður hjálminn sinn í átökunum," segir mótmælandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×