Lífið

Hollywood-fárið heldur áfram á landinu

Þorbjörn Þórðarson. skrifar
Stórleikarinn Russell Crowe er væntanlegur hingað til lands í næstu viku í tengslum við tökur á stórmyndinni um Örkina hans Nóa. Til stóð að leigja sumarbústað í Grímsnesi fyrir eiginkonu Crowe, en fallið var frá því vegna nálægðar við nærliggjandi bústaði. Fjárfesting vegna kvikmyndagerðar hleypur á milljörðum króna.

Noah, endurgerð hinnar sígildu Biblíusögu um Örkina hans Nóa er hundruð milljóna dollara stórmynd eftir leikstjórann Darren Aronofsky, sem leikstýrt hefur fjórum leikurum til óskarsverðlauna.

Tökur hefjast á myndinni síðar í þessum mánuði á Suðvesturlandi, en með titilhlutverkið fer enginn annar en nýsjálenski óskarsverðlaunahafinn Russell Crowe og er hann væntanlegur til landsins í næstu viku.

Meðal annars fór sérstakt teymi á vegum framleiðslufyrirtækisins True North að leita að sumarbústaði fyrir eiginkonu hans, Danielle, sem verður með honum hér á landi. Var bústaður í Grímsnesi skoðaður, samkvæmt upplýsingum fréttastofu en fallið frá leigu á honum vegna nálægðar við nærliggjandi bústaði.

Ekki fengust svör við því á skrifstofu forseta Íslands hvort Crowe yrði gestur á Bessastöðum meðan Crowe dvelst hér á landi en forsetinn er nokkur aðdáandi leikarans og lýsti því í tveimur viðtölum sem hann veitti í kosningabaráttunni. Forsetinn er sem stendur í fríi erlendis á ótilgreindum stað.

Í beinni línu á DV í kosningabaráttunni var hann spurður hvern hann vildi sjá leika sig ef gerð yrði kvikmynd um ævi hans og nefndi Crowe. Þá hafa þeir hist fyrir tilviljun, er forsetinn snæddi hádegisverð með breska leikaranum Michael Caine fyrir nokkrum árum.

Það má með sanni segja að árið 2012 verði þekkt fyrir sannkallað Hollywood-fár hér á landi. Tom Cruise var hér í síðasta mánuði vegna kvikmyndarinnar Oblivion.

Ben Stiller er staddur hér á landi og skemmti sér á Vegamótum í gærkvöldi. Síðar í sumar hefjast tökur á myndinni The Secret life of Walter Mitty, sem skartar Stiller í aðalhlutverki en hún verður tekin upp víða um land, meðal annars á Seyðisfirði og hefjast tökur í september.

Promotheus, stórmynd Ridley Scott, var tekin upp hér fyrra en tekjurnar af henni námu 750 milljónum króna hér innlands. Gera má ráð fyrir að hver þessara myndi feli sér fjárfestingu hér innanlands af svipaðri stærðargráðu. Heildarfjárfesting vegna þessara kvikmyndaverkefna hleypur því samtals á milljörðum króna.

Framleiðslufyrirtækið True North, undir stjórn Leifs Dagfinnssonar, ber þungann og hitan af flestum þessara verkefna og má ætla að tekjuaukning fyrirtækisins af þessum sökum sé veruleg.


Tengdar fréttir

Russel Crowe á leið til landsins til að leika Nóa

Stórstjarnan Russel Crowe mun leika aðalhlutverkið í Noah, kvikmynd eftir Darren Aronofsky sem tekin verður hér á landi í júlí. Þetta kemur fram í tilkynningu frá framleiðendum myndarinnar en Crowe hafði áður verið orðaður við hlutverkið. Önnur stjarna, Liam Neeson, er einnig sagður líklegur til þess að fara með hlutverk.

Russell Crowe til Íslands?

Russell Crowe mun að öllum líkindum leika aðalhlutverkið í stórmynd Darrens Aronofsky, Noah, sem verður hugsanlega tekin að hluta til upp hér á landi í sumar. Aronofsky er einnig sagður áhugasamur um að fá Liam Neeson til að leika annað hlutverk í myndinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.