Erlent

Svona hljómar kjarnasprenging

Vafalaust hafa flestir séð gömul myndbönd af kjarnorkusprengingum, fæstir hafa hins vegar heyrt hvellinn sem þær framkalla. Bandarískur fræðimaður hefur nú birt myndband þar sem ótrúlegur eyðileggingarmáttur kjarnasprengjunnar er sýndur ásamt óhugnanlegum óm hennar.

Alex Wellerstein, vísindasagnfræðingur við Eðlisfræðistofnun Bandaríkjanna, birti myndbandið á heimasíðu sinni í síðustu viku. Hann hafði lengi grunað að hljóðrásir myndbanda sem sýna kjarnorkusprengingar væru ekki réttar.

Hann heldur því fram að hljóðinu hafi oftast verið bætt við í eftirvinnslu: „Ef þessi myndbönd hafa hljóð yfir höfuð þá er því yfirleitt bætt við seinna og þá með hljóði frá allt öðrum sprengingum. Oft á tíðum er búið að færa hljóðrásina til svo að sprengingin heyrist um leið og hún sést — sem er auðvitað ekki mögulegt."

Núna hefur Wellerstein birt myndband af raunverulegri kjarnasprengingu með réttu hljóði. Þessi tiltekna sprenging átti sér stað í Yucca-fjallasvæðinu í Nevada árið 1953.

Hægt er að sjá myndbandið hér fyrir ofan. Það skal þó benda á að sprengingin á sér stað þegar tvær mínútur eru liðnar af myndbandinu, hljóðið heyrist síðan 30 sekúndum seinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×