Erlent

Meðlimum danskra glæpagengja fækkar töluvert

Þeim sem tilheyra glæpagengjum á borð við Hells Angles og Bandidos í Danmörku hefur fækkað töluvert milli ára.

Þetta kemur fram í nýbirtri skýrslu danska ríkislögreglustjórans um starfsemi þessara gengja. Þar segir að alls teljist tæplega 1.700 Danir til þessara gengja, annaðhvort sem fullgildir félagar eða áhangendur. Þetta er 177 mönnum færra en í lok síðasta árs.

Í skýrslunni segir að ástæða þessarar fækkunar sé bæði að einstaklingar hafi yfirgefið gengin og að losarabragur hafi komist á skipulag margra þeirra, einkum svokallaðra áhangendaklúbba. Þar er átt við klúbba eins og Red and White crew fyrir Hells Angels og X team fyrir Badidos.

Þá kemur fram að danska lögreglan fylgist náið með 133 klúbbum og hópum þessara gengja í hinum danska glæpaheimi.

Þótt meðlimum gengjanna hafi fækkað er nýliðun stöðugt í gangi hjá þeim. Nýliðarnir eru einkum sóttir úr hópum fótboltabulla það er manna sem vilja helst slást fyrir og eftir fótboltaleiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×