Erlent

Hreyfingarleysi kostar fimm milljónir manna lífið árlega

Um þriðjungur af mannkyninu fær ekki næga hreyfingu og talið er að hreyfingarleysi kosti um fimm milljónir manna lífið á hverju ári.

Þar með látast álíka margir af völdum hreyfingarleysis og látast af völdum tóbaksreykinga árlega í heiminum. Þetta eru niðurstöður nýrra rannsóknar sem birtar hafa verið í breska læknablaðinu Lancet. Þar segir að þrír af hverjum tíu jarðarbúum sem eru orðnir 15 ára eða eldri hreyfi sig minna en heilbrigðisyfirvöld mæla með.

Hjá unglingum er staðan mun verri en í skýrslunni segir að fjórir af hverjum fimm unglingum sem eru á aldrinum 13 til 15 ára hreyfi sig alltof lítið á hverjum degi.

Þá kemur fram að konur hreyfa sig minna en karlar og að hreyfingarleysi sé útbreiddara í löndum þar sem tekjur eru miklar.

Mælt er með því að einstaklingar stundi líkamsrækt í einhverju formi í minnst tvo og hálfan tíma í hverri viku til að viðhalda heilsu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×