Handbolti

Patrekur segir Íslendinga mega vera sátta með dráttinn á HM

Hjörtur Hjartarson skrifar
Patrekur Jóhannesson telur að Ísland muni berjast um efsta sætið í sínum riðli á HM í janúar.
Patrekur Jóhannesson telur að Ísland muni berjast um efsta sætið í sínum riðli á HM í janúar.
Patrekur Jóhannesson, þjálfari karlaliðs Vals í handbolta, segir að íslenska landsliðið eigi góða möguleika á að berjast um sigur í riðlinum á Heimsmeistaramótinu í janúar á næsta ári. Dregið var í riðlana fjóra í morgun og er Ísland í riðli með Danmörku, Makedóníu, Rússlandi, Katar og Ástralíu.

"Ef við horfum á hina riðlana þá má ljóst vera að Ísland hefði geta lent gegn sterkari andstæðingum. Í okkar riðli eru lið sem við eigum að klára en síðan eru hinir leikirnir bara "fifty-fifty" eins og alltaf. Sama hefði þó líklega verið hægt að segja, sama í hvaða riðli Ísland hefði lent", sagði Patrekur.

Ljóst er að breytingar verða á íslenska liðinu áður en að Heimsmeistaramótinu á Spáni kemur. Guðmundur Guðmundsson mun stýra íslenska liðinu í síðasta sinn á Ólympíuleikunum í London og þá hefur Ólafur Stefánsson gefið það út að hann muni leggja landsliðsskóna á hilluna í næsta mánuði.

Patrekur telur, þó vissulega verði eftirsjá í þessum tveimur mönnum, að liðið verði vel samkeppnishæft áfram á meðal þeirra bestu.

"Það er bara Óli sem er að verða fertugur og því í lagi að hann fái að hvíla sig aðeins. Auðvitað verður einhver breyting og nýr þjálfari kemur en kjarninn í liðinu ætti að vera áfram. Þetta eru ekki það gamlir strákar. Vissulega er mikið álag á leikmönnum íslenska liðsins, sérstaklega þeim sem spila í Þýskalandi. Kannski munu einhverjar þeirra spyrja sig hvort rétt sé að reyna að lengja ferilinn með því að draga sig út úr landsliðinu. Ég tel hinsvegar að allir muni þeir gera allt sem þeir geta til að spila bæði með sínu félagsliði og íslenska landsliðinu", sagði Patrekur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×