Erlent

Hótelstjóri og prestur rífast um 50 Shades of Grey

Fifty Shades of Grey er ein vinsælasta bók heims um þessar mundir.
Fifty Shades of Grey er ein vinsælasta bók heims um þessar mundir. mynd/AFP
Hörð orðaskipti hótelstjóra og sóknarprests í Bretlandi hafa vakið mikla athygli síðustu daga. Málið hófst þegar hótelstjórinn fjarlægði allar Biblíur úr hótelherbergjum sínum og setti í stað þeirra erótísku metsölubókina 50 Shades of Grey.

Wayne Bartholomew rekur 40 herbergja hótel í Crosthwaite í Norðvestur Bretlandi. Fyrir nokkrum vikum ákvað að hann skipta bókunum út og nú geta hótelgestir glöggvað sig á kynæsandi bókmenntum í stað heilagrar ritningar.

Bartholomew segir að Biblían sé hvort eð er yfirfull af kynlífi, þar að auki er 50 Shades of Grey mun þægilegri lesning. Hótelgestir sem vilja frekar lesa Biblíuna geta haft samband við afgreiðslu hótelsins og fengið hana ef vilji er fyrir því.

En Michael Woodcock, sóknarprestur á svæðinu, hefur fordæmt ákvörðun Borthomews. Hann sakar hótelstjórann um að reyna að græða á metsölubókinni.

„Það er mikil skömm í því að Biblían hafi verið fjarlægð," segir Woodcock. „En ég er handviss um að hún mun snúa aftur á hótelherbergin."

Þá hefur presturinn húðskammað Bortholomew fyrir að gera mikið úr kynferðislegum vísunum Biblíunnar. „Það er auðvitað auðvelt að taka hluti úr samhengi," segir Woodcock.

En Bortholomew heldur ótrauður áfram og bendir á að hann sé aðeins að svara eftirspurn fólksins.

„Þetta er ágætis gjöf handa hótelgestum, að finna 50 Shades of Grey í náttborðunum," segir hótelstjórinn og bætir við: „Og það á bæði við um konur og karla."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×