Lífið

Harkalegar deilur innan töframannasamfélagsins

HÍT efast um þátttöku Einars Mikaels á heimsmeistaramóti töframanna í Blackpool en Einar heldur því fram að hann fái atriði sitt dæmt næst þriðjudag.
HÍT efast um þátttöku Einars Mikaels á heimsmeistaramóti töframanna í Blackpool en Einar heldur því fram að hann fái atriði sitt dæmt næst þriðjudag. Fréttablaðið/Stefán
"Einar mun ekki taka þátt í keppni FISM í Blackpool í næstu viku," segir Gunnar Kristinn Sigurjónsson, ritari stjórnar Hins íslenska töframannagildis, eða HÍT.
Á miðvikudag greindi Fréttablaðið frá þátttöku Einars Mikaels Sverrissonar í Heimsmeistaramóti töframanna, en þar kom meðal annars fram að hann yrði fyrsti Íslendingurinn í keppninni. Mótið hefst á sunnudaginn og stendur til 14. júlí. Það er haldið af alþjóðlegum samtökum töframanna eða FISM. Stjórn HÍT heldur því fram að Einar verði einungis áhorfandi þar sem nafn hans megi ekki finna á lista yfir keppendur.

Gunnar Kristinn hafði samband við Arthur Casson, skráningarstjóra FISM. "Hann var með nýjasta listann og staðfesti að það væri enginn frá Íslandi í keppninni," útskýrir hann. "Þar að auki er Einar ekki félagi í Hinu íslenska töframannagildi, eða sambærilegum töfrasamtökum sem eru

innan FISM, svo hann hefði ekki þátttökurétt í umræddri keppni."

Gunnar tekur fram að þátttakendur þurfi að hafa keppt í öðrum keppnum sem Einar hafi ekki gert. "Þetta er bara eins og í íþróttunum. Landsliðin eru búin að keppa á alls kyns mótum áður en þau komast á Ólympíuleikana," segir hann.

Að þessu sögðu véfengir hann tilvist Hogwarts School of Witchcraft and Wizardy en þar segist Einar vera við nám. "Það er enginn töfraskóli til sem heitir Hogwarts. Ætli Warner Bros og J.K. Rowling eigi ekki einkarétt á þessu nafni," segir Gunnar sem skilur hvorki upp né niður í orðum Einars. "Ég veit í raun ekki hvað liggur að baki annað en það að vekja athygli á sér."

Einar Mikael segist sleginn yfir viðbrögðum Gunnars. "Ég keppi sem Íslendingur en ekki fyrir hönd HÍT," segir Einar sem sagði sig fyrir skömmu úr HÍT og segist hafa fengið þátttökurétt í gegnum

bandarískan töframannahring, sem hann er félagi af og er hluti af FISM, þar sem hann sé með bandarískt ríkisfang.

"Það á eftir að setja mig inn á listann yfir keppendur. Það er fullt af nöfnum sem vantar inn á þessa heimasíðu," segir Einar sem mun láta mahóníborð svífa með töfradúfunni sinni næsta þriðjudag. "Ég er að fara að taka þátt og atriðið mitt verður dæmt. Ég tel mjög ólíklegt að ég verði heimsmeistari en með þessu er ég að stimpla mig inn."

Einar segir HÍT vera að reyna að koma af stað leiðindum og er miður sín yfir að þeir efist um tilvist Hogwarts. "Hann er til í alvörunni en ekki í þeirri mynd að ég fari í lest inn í annan heim. Þetta er skóli á netinu sem kennir ýmis brögð á námskeiðum. Ég mun reyndar ekki klára meistaranám þaðan í sumar en það er draumurinn," segir hann.

hallfridur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.