Fótbolti

Cristiano Ronaldo: Núna brosa allir í liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo
Cristiano Ronaldo Mynd/AFP
Cristiano Ronaldo var hetja Portúgala í kvöld þegar hann skoraði eina markið í 1-0 sigri á Tékklandi í átta liða úrslitum á EM í fótbolta. Ronaldo skapaði sér fjölda færa í leiknum en skoraði sigurmarkið með skalla ellefu mínútum fyrir leikslok.

„Við spiluðum vel og sköpuðum fullt af færum. Við gerðum allt til þess að komast í undanúrslitin og það tókst," sagði Cristiano Ronaldo.

„Liðið hefur þroskast og við erum tilbúnir í næsta leik," sagði Ronaldo en portúgalska liðið mætir sigurvegaranum úr leik Spánverja og Frakka sem fer fram á laugardagskvöldið.

„Ég skaut tvisvar í stöngina í síðasta leik og svo aftur í kvöld en það mikilvægasta var að ég náði að skora, liðið spilaði vel og allir eru ánægðir. Núna brosa allir í liðinu," sagði Ronaldo sem hefur skorað 3 mörk og átt 4 stangarskot í síðustu tveimur leikjum portúgalska liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×