Skoðun

Ég samhryggist þér…á Facebook

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Ég nota Facebook nær daglega og hef oft mjög gaman að. Þrælsniðugt tól þegar kemur að því að fylgjast með ástvinum erlendis, halda sambandi við vini sem ég umgengst ekki reglulega og svala ríkulegri forvitni minni þegar kemur að skemmtilegu og áhugaverðu fólki. Ég tjái mig líka þarna inni og þegar ég er í stuði finnst mér á köflum ég svo átakanlega fyndin að ég hreinlega verð að dúndra inn eins og einum status eða pósta hressandi myndum með misgáfulegum skilaboðum. Blessunarlega er ég með húmor fyrir sjálfri mér því ég þori að veðja á að langt frá því allir kunni að meta oft á tíðum kaldhæðnislegan húmor minn. Það er í góðu lagi því ég tel mig ekki vera að valda neinum ónæði eða sárindum, en ef svo er vona ég að sá eða sú er fyrir ónæðinu verður hafi vit á að blokka mig.

Ástvinamissir og sorg eru eitthvað sem ég, líkt og flestir sem komnir eru á fullorðinsár, hef þurft að takast á við. Það er sárt og erfitt ferli að kveðja ástvin og alls ekki eitthvað sem venst þó svo að tíminn líði og fleiri ástvinir kveðji. Allir hafa sinn háttinn á til að takast á við sorgina og allir eiga auðvitað að fá að hafa sinn háttinn á. Taka sinn tíma í að melta missinn og fá tækifæri til þess átta sig á aðstæðum í einrúmi eða í faðmi ástvina áður en blákaldur veruleikinn tekur við og spurningar um hvenær, hvernig og hvers vegna skella á krömdu hjarta. Mig langar því til að stinga því að þér lesandi góður að það er ekkert töff að vera Fía fréttamaskína þegar kemur að andláti fólks. Það eru engin verðlaun í boði fyrir þann sem er svo ótrúlega hjartahlýr og fullur af væntumþykju að hann verður að vera fyrstur til að rita samúðarkveðjur inn á vegginn hjá Facebook vini sínum eða setja kross sem status hjá sér til þess eins að geta veitt forvitnum svör um hver var að kveðja heiminn.

Ef einhver í kringum þig missir ástvin og þér þykir virkilega vænt um viðkomandi, taktu þá frekar upp símann, ritaðu viðkomandi einkaskilaboð eða dragðu djúpt andann og bíddu þar til hann kemur út á meðal fólks og þá geturðu gefið honum þá vítamínsprautu sem gott faðmlag er.




Skoðun

Sjá meira


×