Fótbolti

Ítalir búnir að tryggja sér sæti í Álfukeppninni 2013

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Ítalska landsliðið í fótbolta tryggði sér ekki bara sæti í úrslitaleiknum á EM með sigri sínum á Þjóðverjum í undanúrslitum Evrópumótsins í gær. Ítalir tryggðu sér nefnilega um leið sæti í Álfukeppninni næsta sumar.

Spánverjar hafa þegar tryggt sér sæti í Álfukeppninni sem heimsmeistarar og verða Ítalir því fulltrúar Evrópu. Þetta er önnur Álfukeppnin í röð sem Ítalir eru með en þeir mættu á þá síðustu sem ríkjandi Heimsmeistarar.

Keppnin fer fram í Brasilíu næsta sumar og er sem fyrr hugsuð sem generalprufa fyrir næstu Heimsmeistarakeppni sem fer fram í Brasilíu 2014.

Aðrar þjóðir sem verða með eru gestgjafar Brasilíu, Úrúgvæ, Mexíkó, Japan og Tahiti en það ræðst ekki fyrr en eftir Afríkukeppnin í byrjun næsta árs hver fulltrúi Afríku verður.

Álfukeppnin fer fram frá 15. til 30. júní 2013 og verður spilaður á sex leikvöngum sem munu allir koma til með að hýsa leiki á Hm 2014.

Brasilíumenn eiga titil að verja en þeir hafa unnið Álfukeppnina í tvö síðustu skipti, 2005 og 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×