Erlent

Hollande verður næsti forseti Frakklands

Frá Bastillutorgi í dag.
Frá Bastillutorgi í dag. mynd/AP
Sósíalistinn Francois Hollande hefur borið sigur úr býtum í forsetakosningum í Frakklandi samkvæmt útgönguspám og fyrstu kosningatölum.

Valið stóð á milli sitjandi forseta, Nicolas Sarkozy og Francois Hollande frambjóðanda sósíalista sem sigraði í fyrri umferð kosninganna. Kannanir undanfarið hafa bent til sigurs Hollande en þó var búist við að mjótt yrði á munum.

Fyrstu tölur voru birtar núna klukkan sex og samkvæmt þeim verður Francois Hollande, næsti forseti Frakklands.

Hollande fær 51,9 prósent atkvæða en Sarkozy 48.10 prósent. Sósíalistar hafa þegar fagnað sigri en Hollande er fyrsti sósíalistinn sem sigrar í forsetakosningum í Frakklandi frá því Francois Mitterand gerði það árið 1988.

Nicolas Sarkozy hefur viðurkennt ósigur sinn í forsetakosningunum. Það er því orðið ljóst að Francois Hollande verður fyrsti vinstrisinnaði forseti Frakklands frá árinu 1995.

Sarkozy er hinsvegar orðinn einn af mörgum leiðtogum Evrópu sem hafa hrakist frá völdum í þeirri efnahagskreppu sem þjakað hefur álfuna síðustu misseri.

Hann er því fyrsti forseti Frakklands í rúm 20 ár sem nær ekki endurkjöri til annars kjörtímabils.

Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði segir muninn á frambjóðendunum ekki vera mikinn, til að mynda hafi þeir mjög svipaða stefnu í utanríkismálum.

„En ef við lítum til innanríkismála þá er nokkuð meiri munur á frambjóðendunum," segir Baldur. „Hollande hefur lagt meiri áherslu á að byggja upp franska velferðarkerfið og að beita ríkisvaldinu til þess að auka atvinnu í Frakklandi og til að reisa landið við efnahagslega og úr þeim efnahagslegu þrengingum sem landið er í þessa stundina."

Sarkozy hafi hinsvegar lagt meira upp úr því að beita hefðbundnum aðferðum frjálshyggjunnar.

Eins og Baldur bendir á hefur franskur almenningur hefur ekki farið varhluta af efnahagsþrengingum undanfarin misseri og Sarkozy virðist vera að fá að kenna á því. Að sögn Baldurs hefur það víða gerst að sitjandi stjórnvöldum sé refsað.

„Menn líta þá til stjórnarandstöðunnar og vona að hún geti gert betur.“

Sigri Hollande er nú fagnað á Bastillutorgi í París en stuðningsmenn hans hafa safnast þar saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×