Sport

Ragna svo gott sem örugg með sæti á ÓL í sumar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
mynd/vilhelm
Badmintonkonan Ragna Ingólfsdóttir stendur vel að vígi um sæti á Ólympíuleikunum í Lundúnum í sumar. Ragna hefur ákveðið að keppa ekki frekar á alþjóðlegum mótum en tvær vikur eru í að staðfestur listi yfir þátttakendur í badmintonkeppni Ólympíuleikanna verði birtur.

Ragna var yfirveguð í samtali við íþróttadeild í dag og sagðist bíða eftir staðfestum lista þátttakenda. Hún viðurkenndi þó að staðan væri afar góð og ótrúlegir hlutir þyrftu að gerast til þess að hún yrði ekki á meðal þátttakenda í Lundúnum.

Ragna situr sem stendur í 72. sæti heimslistans sem dugar henni til þess að komast á leikana. Fjórir spilarar sem eru fyrir aftan Rögnu á listanum eiga sæti á leikunum víst eins og mál standa í dag.

Hér má sjá óstaðfestan lista þeirra sem eiga sæti tryggt á leikana eins og staða mála er í dag. Hver þjóð getur aðeins sent einn þátttakenda sem er neðar en í 16. sæti heimslistans á leikana og því eiga helstu nágrannar Rögnu á listanum ekki möguleika á sæti jafnvel þótt þeir kæmust upp fyrir hana á listanum.

Það er því allt útlit fyrir að Ragna keppi í Lundúnum í sumar en það fæst staðfest fimmtudaginn 3. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×