Innlent

Aldrei fleiri læknar sótt um sérnám í heimilislækningum hér á landi

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Aldrei áður hafa eins margir læknar sótt um í sérnnámi í heimilislækningum hér á landi. Tvöfalt fleiri umsóknir en áður hafa borist um stöður sem nýlega voru auglýstar.

Hér á landi hefur um nokkurt skeið verið í boði sérstakt nám fyrir þá lækna sem vilja sérhæfa sig í heimilislækningum. Námið er greitt af Velferðarráðuneytinu en Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins heldur utan um það. Í lok mars var auglýst eftir umsóknum um lausar stöður í náminu og barst þá metfjöldi umsókna.

„Það er um að ræða núna fimm lausar námstöður. Ráðuneytið hefur haft þetta um allmargra ára skeið til sérnáms í heimilislækningum, 3 ára stöður, en námið er náttúrulega 4 og hálft til fimm ár. Núna vorum við að auglýsa fimm sem voru lausar og um það sækja 23," segir Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu.

Umsóknirnar nú eru um tvöfalt fleiri en áður.

„Það hafa verið svona á bilinu tíu, tólf kannski fimmtán. Þannig það kom mjög skemmtilega á óvart að þetta skuli vera svona margir sem sækja um þetta núna," segir hann.

Töluverð umræða hefur verið um það að bæði læknar og unglæknar á leið í sérnám leiti í auknu mæli út fyrir landsteinana.

„Það hefur verið talsvert um að unglæknar hafi farið fyrr en þeir gerðu áður. Það hefur líka verið talsvert um að menn nýti sér leyfin til að vera úti en það er ekkert nema gott við því að segja en það gera fleiri en læknar."

Sveinn segir það því ánægjuefni að svo margir vilji taka sérnámi sitt hér á landi.

„Maður óttast að eins og maður heyrir að fólk færi til útlanda og það dragi kannski úr þessu en þetta er alveg þveröfugt. Þetta er mjög jákvætt að fólk vill vera hér heima og vinna hér heima."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×