Innlent

Segir atvinnulífið í stofufangelsi gjaldeyrishaftanna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Svana Helen Björnsdóttir er formaður Samtaka iðnaðarins.
Svana Helen Björnsdóttir er formaður Samtaka iðnaðarins.
Gjaldeyrishöftin valda að atvinnulífinu líður svolítið eins og það sé í stofufangelsi, segir Svana Helen Björnsdóttir nýr formaður Samtaka iðnaðarins. Svana Helen sagði í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að gjaldeyrishöftin valdi því að íslensku stórfyrirtækin fái ekki fjármagn.

„Við skulum muna hvernig íslensku stórfyrirtækin hafa vaxið. Þau hafa vaxið þannig að erlendir aðilar hafa komið með fjármagn," segir hún. Útflutningsverðmæti hafi orðið þannig til að fyrirtækin hafi getað haslað sér völl erlendis. Íslendingar verði að geta treyst því að fá erlenda sérfræðinga til að vinna með sér. „Við getum ekki unnið þetta ein," segir hún.

Svana Helen segist ekki vilja slíta Evrópusambandsaðildarferlinu. Það mál sé í ákveðnu ferli, en Evrópusambandsaðildin muni ekki leysa öll mál. Samtök iðnaðarins eigi að beita sér að faglegri umræðu um þessi mál en ekki vera pólitísk. Íslendingar þurfi hins vegar að setja sér markmið strax og ekki vera að leita að einhverjum skyndilausnu. „Við erum með krónuna og hversu mikið sem okkur langar til að hafa evru sé ég enga skyndilausn í því," segir Svana. Uppbyggingin þurfi hins vegar að hefjast strax.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×