Innlent

Grípur bara 15 prósent vágesta

Android merkið
Android merkið
Ný öryggisviðbót Google fyrir nýjustu útgáfu Android-stýrikerfisins (JellyBean 4.2) sem vinsa á óværu úr þeim fjölda smáforrita (appa) sem í boði eru reynist hafa takmarkaða virkni.

Viðbótin, App Verification Service, greinir aðeins 15 prósent þekktrar óværu, eins og fram hefur komið í prófunum. Smáforrit frá vírusvarnafyrirtækjum sem í boði eru fyrir snjallsíma og tölvur með Android-stýrikerfi grípa aftur á móti frá 51% til allrar óværu.

Óværa í gervi smáforrita getur verið margvísleg, allt frá því að breyta tækinu í dreifistöð fyrir ruslpóst í að stela notendaupplýsingum og til þess að njósna um notanda tækisins.

Sé fólk með kveikt á öryggisviðbótinni þá eru send boð í netský Google áður en smáforrit eru sett upp og síðan kemur viðvörun á skjá símans eða tölvunnar ef forritið er vafasamt eða uppsetning er stöðvuð ef um þekkta óværu er að ræða.

Samanburður öryggisviðbótarinnar, sem unninn var við tölvunarfræðideild ríkisháskóla Norður-Karólínu í Bandaríkjunum, við fjölda vírusvarnaforrita leiðir hins vegar í ljós að notendum nægir ekki virknin ein til að tryggja öryggi tækja sinna. Í úttektinni er bent á að öryggisviðbótin styðjist ekki við gögn frá Total Virus, vírusvarnafyrirtæki í eigu Google, sem standi sig mun betur en viðbótin ein. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×