Innlent

Íbúar slegnir og áhyggjufullir

GS skrifar
Stigagangurinn er illa farinn eftir mikinn reyk.
Stigagangurinn er illa farinn eftir mikinn reyk. Mynd/ Egill.
Íbúar í stigagangi fjölbýlishúss við Maríubakka í Reykjavík, eru slegnir og áhyggjufullir eftir að hafa þurft að rýma íbúðir sínar í nótt, í annað sinn á nokkrum dögum, vegna þess að eldur var kveiktur í sameign hússins, og brennuvargurinn er ófundinn.

Þeir forðuðu sér út klukkan hálf tvö í nótt þegar reykur fór að berast um stigaganginn. Slökkviliðið var kvatt á vettvang og sendi reykkafara inn í kjallara hússins, þar sem eldur logaði í geymslu. Greiðlega gekk að slökkva eldinn og hlaust ekki mikið tjón af, en síðan þurfti að reykræsta stigagangin og einhverjar íbúðir.

Íbúum hússins er illa brugðið því fyrir aðeins nokkrum dögum var kveikt í ruslageymslu í húsinu með þeim afleiðingum að mikill reykur barst um stigaganginn og inn í nokkrar íbúðir, og jafnframt var reynt að kveikja í dóti, sem var í hjólageymslunni. Brennuvargurinn er ófundinn og liggur engin sérstakur undir grun, eftir því sem fréttastofan kemst næst. Íbúunum er því ekki rótt og varpar máli skugga á jólaundirbúning þeirra.-






Fleiri fréttir

Sjá meira


×