Lífið

Fastakúnnar Frúarinnar felldu tár

Þorbjörg Halldórsdóttir og Guðrún Jónsdóttir, sem reka Frúna í Hamborg, hætta með verslunina í lok mánaðarins. Fastakúnnar þeirra felldu sumir tár er þeir fengu fréttirnar.fréttablaðið/
Þorbjörg Halldórsdóttir og Guðrún Jónsdóttir, sem reka Frúna í Hamborg, hætta með verslunina í lok mánaðarins. Fastakúnnar þeirra felldu sumir tár er þeir fengu fréttirnar.fréttablaðið/
Verslunin Frúin í Hamborg hættir rekstri þann 28. júlí næstkomandi. Verslunin hefur verið starfrækt í tíu ár og nýtur mikilla vinsælda meðal Akureyringa sem og innlendra og erlendra ferðamanna.

Þorbjörg Halldórsdóttir og Guðrún Jónsdóttir reka Frúna í Hamborg og segja breyttar aðstæður ráða því að þær ætli að hætta rekstri. „Ég keypti húsnæðið sem við erum í árið 2007 og eftir hrun hækkuðu afborganirnar töluvert og innkoma okkar var lítil þannig að þetta varð okkur þungur róður. Þó verslunin sé full á sumrin þá detta viðskiptin óhjákvæmilega niður á haustin í svona litlu bæjarfélagi. Við tókum ákvörðunina um að hætta í vor og vissulega er maður svolítið sorgmæddur. Við erum með mikið af fastakúnnum og á tímabili vorum við hættar að þora að segja fólki frá því að við ætluðum að loka því það varð alveg miður sín og sumir fóru jafnvel að gráta,“ segir Þorbjörg.

Verslunin var opnuð árið 2003 og flutti í nýtt húsnæði árið 2007. Nafn verslunarinner er þannig tilkomið að Þorbjörg og Guðrún ætluðu upphaflega að leigja í húsi sem heitir Hamborg og þótti því tilvalið að nefna búðina Frúna í Hamborg. Þó verslunin hafi á endanum aldrei verið rekin í Hamborgar-húsinu ákváðu vinkonurnar að halda nafninu.

Innt eftir því hvað taki við að þessu loknu segir Þorbjörg það óráðið. „Við verðum að fara til spákonu,“ gamnast hún með en bætir svo við: „Er það ekki oftast þannig að þegar einar dyr lokast að þá opnast aðrar? Maður veit aldrei hvað gerist.“

Verslunin verður opin alla daga fram að lokum. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.