Erlent

Refsiaðgerðir farnar að bíta

Átökin í Sýrlandi hafa kostað allt að þrjátíu þúsund manns lífið.
Átökin í Sýrlandi hafa kostað allt að þrjátíu þúsund manns lífið. nordicphotos/AFP
Mikil sprenging varð á bensínstöð í borginni Ain Issa í norðanverðu Sýrlandi í gær. Að minnsta kosti þrjátíu manns létu lífið og tugir særðra manna voru fluttir á nærliggjandi sjúkrahús.

Uppreisnarmenn fullyrtu að stjórnarherinn hefði gert harða loftárás á bensínstöðina með fyrrgreindum afleiðingum.

Sameinuðu þjóðirnar telja að átökin í Sýrlandi hafi kostað ekki færri en tuttugu þúsund manns lífið, en mannréttindasamtök telja mannfallið farið að nálgast þrjátíu þúsund. Flestir hinna látnu eru almennir borgarar, þar á meðal konur og börn.

Í gær komu saman í Hollandi fulltrúar „Vina sýrlensku þjóðarinnar“, samtaka sem Bandaríkin, Evrópusambandið, Arababandalagið og fleiri ríki settu á laggirnar í febrúar þegar ljóst var orðið að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gæti ekki komið sér saman um aðgerðir gagnvart Sýrlandi.

Tilgangur fundarins í gær var að skoða betur möguleika til að einangra Sýrlandsstjórn, einkum með frekari fjárhagslegum refsiaðgerðum.

Uri Rosenthal, utanríkisráðherra Hollands, segir að þær refsiaðgerðir, sem þegar hefur verið gripið til, hafi borið árangur, þrátt fyrir að hvorki Rússland, Kína né Íran taki þátt í þeim. Einna mest muni þar um mikinn samdrátt í olíusölu Sýrlendinga: „Evrópusambandið keypti 90 prósent af olíunni frá Sýrlandi,“ segir Rosenthal. „Það hefur reynst stjórninni erfitt að selja olíuna annars staðar.“- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×