Innlent

Karl Garðarsson býður sig fram fyrir Framsókn

Karl Garðarsson.
Karl Garðarsson.
Karl Garðarsson, fjölmiðlafræðingur og fyrrverandi fréttastjóri Stöðvar 2, gefur kost á sér í 1. til 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir alþingiskosningarnar næsta vor.

Í tilkynningu frá Karli segir:

Hugmyndafræði Framsóknarflokksins byggir á traustum grunni þar sem áhersla er lögð á manngildi, jafnræði og samfélagslega ábyrgð. Flokkurinn er laus við þær öfgar sem einkenna flokka lengst til hægri og vinstri í íslenskum stjórnmálum. Þá hefur Framsóknarflokkurinn lagt fram markvissar og skynsamlegar tillögur í helstu málaflokkum.

Nauðsynlegt er að breyta verklagi á Alþingi og auka tiltrú almennings á löggjafaþingið. Það verður einungis gert með viðhorfsbreytingu þeirra sem sitja á Alþingi, þannig að þingmenn hinna ýmsu flokka sameinist um að leysa þau brýnu úrslausnarmál sem blasa við.

Karl leggur áherslu á málefni heimilanna og skuldastöðu þeirra, þar sem afnám verðtryggingar lána er forgangsmál. Lækka þarf skatta og tolla á fyrirtæki og einfalda skattkerfið. Hvetja þarf til atvinnusköpunar með markvissum aðgerðum sem miða að því að fjölga störfum til muna á næsta kjörtímabili. Þá þarf að snúa þeirri óheillaþróun við sem verið hefur í heilbrigðismálum, þar sem kerfið er komið að þolmörkum. Afnema þarf gjaldeyrishöft sem allra fyrst þannig að eðlileg viðskipti geti átt sér stað við önnur lönd.

Karl Garðarsson hefur um aldarfjórðungs reynslu úr íslenskum fjölmiðlum. Hann var fréttastjóri Stöðvar 2 um árabil, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Norðurljósa, ritstjóri og framkvæmdastjóri Blaðsins/24 Stunda og útgáfustjóri prentmiðla Árvakurs, svo fátt eitt sé nefnt.

Karl er með M.A gráðu í fjölmiðlafræði frá Minnesota háskóla, B.A. gráðu í Almennri bókmenntafræði og ensku frá Háskóla Íslands, hefur lokið tveggja ára námi í rekstrar- og viðskiptafræði frá sama skóla og er að ljúka B.A námi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík næsta vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×