Innlent

Ræðst í dag hvort að íbúar fá að snúa aftur heim

Þessi mynd var tekin á Ísafirði í gær.
Þessi mynd var tekin á Ísafirði í gær. Mynd/Pjetur
Þrátt fyrir að vind hafi lægt og hætt að snjóa á Vestjörðum í gærkvöldi, er enn hættustig vegna snjóflóða á Ísafirði og óvissuástand á norðan- og sunnanverðum fjörðunum af sömu ástæðu.

Ekkert bar til tíðinda á svæðinu í nótt, að sögn lögreglu, en það er spáð að það verði orðnir norðaustan 20 til 25 metrar á sekúndu á Vestfjörðum í kvöld og jafnvel ofsaveður á morgun með stórhríð á öllu norðanverðu landinu.

Jafnframt verður stórstreymt og loftþrýstingur óvenju lágur, sem getur skapað flóðahættu með ströndum.

Björgunarsveitarmenn og lögregla voru fram á kvöld að aðstoða fólk í erfiðleikum, en ekki er vitað um nein slys. Nær allir vegir á Vestfjörðum eru kolófærir og verður ekki ráðist í mokstur fyrr en hægt verður að meta snjóflóðahættu þegar líður á morguninn.

Það ræðst svo á fundi Almannavarna klukkan tíu hvort íbúar í fjórum íbúðarhúsum á Ísafirði og í Bolungarvík, sem rýmd voru í gær, fá að snúa aftur heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×