Erlent

Ræðast við fyrst í Noregi og síðar á Kúbu

Á leið til Kúbu Á vefsíðu FARC-hreyfingarinnar hafa birst myndir af félögum hennar að syngja lofsöngva um væntanlegar viðræður við stjórnina.
nordicphotos/AFP
Á leið til Kúbu Á vefsíðu FARC-hreyfingarinnar hafa birst myndir af félögum hennar að syngja lofsöngva um væntanlegar viðræður við stjórnina. nordicphotos/AFP
Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, tilkynnti í sjónvarpsávarpi í gær að formlegar friðarviðræður við FARC-skæruliðasamtökin væru að hefjast.

Santos hafði skýrt frá því í síðustu viku að bráðabirgðaviðræður hefðu verið í gangi síðustu mánuði. Hann sagði í gær að þær viðræður hefðu farið fram á Kúbu fyrir milligöngu bæði norskra og kúbverskra stjórnvalda.

Formlegar viðræður munu hefjast snemma í næsta mánuði í Ósló í Noregi en síðan halda þær áfram á Kúbu. Fjölmiðlar í Kólumbíu hafa haldið því fram að fulltrúar frá Síle og Venesúela muni taka þátt í viðræðunum.

Skæruliðahreyfing FARC hefur áratugum saman verið í vopnaðri baráttu gegn stjórnvöldum, ásamt því að stunda mannrán og fíkniefnaviðskipti til að afla sér tekna, en staða samtakanna hefur veikst mjög síðustu árin.

Santos sagði að viðræðurnar myndu meðal annars snúast um bætur til fórnarlamba skæruliðanna og landsvæði sem skæruliðarnir hafa lagt undir sig. Einnig verði rætt um aðgerðir til að draga úr fátækt í Kólumbíu og endurbætur í landbúnaði.

Þetta er í fjórða sinn á þremur áratugum sem reynt er að semja um frið við FARC. Santos segir að líkurnar á árangri séu nú meiri en áður.

Santos hefur verið forseti Kólumbíu í tvö ár. Forveri hans í embætti, Alvaro Uribe, gagnrýndi hann fyrir að vera alltof viljugur til viðræðna við FARC.

Síðustu friðarviðræður stóðu yfir í þrjú ár en fóru út um þúfur árið 2002.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×