Erlent

Vandi flóttabarna frá Sýrlandi fer vaxandi

UNICEF á Íslandi hefur í dag söfnunarátak til styrktar sýrlenskum börnum í flóttamannabúðum. NordicPhotos/AFP
UNICEF á Íslandi hefur í dag söfnunarátak til styrktar sýrlenskum börnum í flóttamannabúðum. NordicPhotos/AFP
UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, á Íslandi hefur í dag söfnun til styrktar neyðaraðgerðum til hjálpar sýrlenskum börnum í flóttamannabúðum í nágrannaríkjunum.

Ástandið er slæmt í flóttamannabúðunum þar sem nú eru nær 250.000 manns og þar af um helmingur börn. Straumurinn eykst sífellt og flúðu til dæmis 100.000 manns frá Sýrlandi í ágústmánuði einum.

Steina Björgvinsdóttir er barnaverndarfulltrúi hjá UNICEF með aðsetur í Jórdaníu og segir hún í samtali við Fréttablaðið að tíminn skipti sköpum.

„UNICEF sér meðal annars um heilbrigðisþjónustu og að tryggja aðgang að drykkjarvatni og að börn geti haldið skólagöngu sinni áfram. Börnin hafa upplifað mikið og eru undir miklu álagi. Til að þau geti komið lífi sínu í skorður höfum við komið upp svokölluðum barnvænum svæðum innan búðanna þar sem þau finna öryggi. Við höfum komið upp slíkum svæðum fyrir um 2.500 börn í Za"atari-búðunum í Jórdaníu, en í augnablikinu eru þar um 15.000 börn. Það er afar áríðandi að við getum byggt fleiri svæði sem fyrst."

Steina segir að upphæð sem er lág í augum Íslendinga geti skipt sköpum fyrir börn í flóttamannabúðum. Hægt er að styrkja málefnið um 1.500 krónur með því að senda SMS-skilaboðin „unicef" í síma 1900. Einnig er hægt að leggja söfnuninni lið á heimasíðunni Unicef.is. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×