Rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, sem var skipuð til að rannsaka starfshætti og viðbrögð kaþólsku kirkjunnar á Íslandi vegna framkominna ásakana um kynferðisbrot eða önnur ofbeldisbrot, ætlar að kynna skýrslu sína á morgun. Kynferðisbrot innan kaþólsku kirkjunnar komust í hámæli í fyrrasumar þegar fjölmiðlar fjölluðu um ásakanir á hendur Margréti heitinni Müller, kennara við Landakotsskóla, og fleirum sem sögð eru hafa átt sér stað á síðustu öld. Hjördís Hákonardóttir, fyrrverandi Hæstaréttardómari, er formaður rannsóknarnefndarinnar.

