Innlent

Öll met slegin á Keflavíkurflugvelli

BBI skrifar
Mynd/Stefán Karlsson
Nýliðið sumar sló öll fyrri met í farþegafjölda á Keflavíkurflugvelli þegar um ein milljón farþega lögðu leið sína um völlinn. Ef fram fer sem horfir verður þetta ár stærsta ferðaár flugvallarins með 2,4 milljón farþega yfir árið.

Á háannatímanum í júní júlí og ágúst jókst ferðamannastraumurinn um 9% milli ára. Fjöldinn heldur áfram að aukast með 18,9% aukningu í september og gert er ráð fyrir 19,8% aukningu til áramóta.

Stóru flugfélögin hafa tilkynnt um stóraukið sætaframboð komandi vetur og næsta sumar. Þannig stefnir Icelandair á 15% farþegaaukningu á næsta ári, Iceland Express mun auka sætaframboð um 30% og Wow Air stefnir á tvöföldun sætaframboðs.

Þar að auki munu Norwagian Air og easyJet fljúga til Íslands í vetur auk þess sem SAS heldur uppi áætlunarflugi til Osló.

Isavia, þjónustuaðilinn á Keflavíkurflugvelli, hefur mætt þessari aukningu með margvíslegum hagræðingaraðgerðum að eigin sögn. Bæði hefur sjálfsinnritunarstöðvum verið fjölgað og ráðist í breytingar á bifreiðastæðum og afgreiðslu- og biðsvæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×