Erlent

Mannréttindabrot framin á báða bóga

Einn af friðargæsluliðum Sameinuðu þjóðanna tekur myndir af fólksflutningabifreið stjórnarhersins, sem eyðilagðist í sprengjuárás.
Einn af friðargæsluliðum Sameinuðu þjóðanna tekur myndir af fólksflutningabifreið stjórnarhersins, sem eyðilagðist í sprengjuárás. fréttablaðið/AP
Bæði stjórnarherinn og sveitir uppreisnarmanna stunda manndráp og pyntingar í Sýrlandi. Mest af ofbeldinu má þó rekja til stjórnarhersins. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu rannsókarnefndar SÞ.

Rannsóknarnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna fullyrðir að bæði stjórnarherinn í Sýrlandi og æ skipulagðari sveitir uppreisnarmanna hafi staðið að hrottalegum ofbeldisverkum, þar á meðal manndrápum og pyntingum.

Mest af þessu ofbeldi segir nefndin þó að megi rekja til stjórnvalda. Niðurstöður sínar byggir nefndin á hundruðum viðtala við einstaklinga, sem flúið hafa land á síðustu vikum.

„Bardagamenn í vopnuðum hópum stjórnarandstæðinga hafa verið drepnir eftir að þeir voru handteknir eða særðir,“ segir í skýrslu, sem nefndin sendi frá sér í gær. „Í sumum sérlega alvarlegum tilvikum hafa heilu fjölskyldurnar verið teknar af lífi á heimili sínu – yfirleitt fjölskyldumeðlimir þeirra sem andvígir eru stjórninni.“

Meira en 250 friðargæsluliðar eru í Sýrlandi á vegum Sameinuðu þjóðanna til þess að hafa eftirlit með framkvæmd friðaráætlunar, sem Kofi Annan, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, fékk bæði stjórnina og uppreisnarmenn til að fallast á.

Vopnahléð er hins vegar brotið á hverjum degi, bæði af stjórnarliðum og af uppreisnarmönnum.

Stjórn Bashar al Assads forseta heldur enn fast í það að uppreisnin, sem nú hefur staðið yfir í fimmtán mánuði, stafi ekki af almennri óánægju landsmanna heldur standi hryðjuverkamenn á bak við mótmælin. Aukið ofbeldi tengt mótmælunum geri ekki annað en að staðfesta þetta.

Uppreisnarmenn segjast á hinn bóginn hafa nauðbeygðir gripið til vopna eftir að stjórnarherinn tók að skjóta á mótmælendur og varpa sprengjum á almenning. Uppreisnarmenn hafa einnig sakað stjórnina um að standa að mörgum sprengjuárásum í landinu í þeim tilgangi að geta kennt uppreisnarmönnum um hryðjuverk.

Í mars síðastliðnum taldist Sameinuðu þjóðunum til að átökin í landinu hafi frá upphafi kostað meira en níu þúsund manns lífið. Átökin hafa haldið áfram, svo hæglega má gera ráð fyrir því að fjöldi látinna sé kominn vel yfir tíu þúsund.

Átökin í Sýrlandi hafa einnig breiðst út til nágrannaríkisins Líbanons, þar sem banvæn átök hafa kostað að minnsta kosti tíu manns lífið síðasta hálfa mánuðinn.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×