Erlent

Handtökuskipun gefin út á Gaddafí

Gaddafí er gefið að sök að hafa fyrirskipað morð, árásir og ólögmætar handtökur á almennum borgurum.Fréttablaðið/AP
Gaddafí er gefið að sök að hafa fyrirskipað morð, árásir og ólögmætar handtökur á almennum borgurum.Fréttablaðið/AP
Dómarar við Alþjóðadómstólinn í Haag gáfu í gær út handtökuskipun á hendur Múammar Gaddafí, leiðtoga Líbíu. Honum er gefið að sök að hafa fyrirskipað morð á almennum borgurum.

Alþjóðadómstóllinn segir Gaddafí, son hans Seif al-Islam og yfirmann líbísku leyniþjónustunnar, Abdullah al-Sanoussi, hafa staðið fyrir morðum, árásum og ólögmætum handtökum á hundruðum almennra borgara á fyrstu dögum uppreisnarinnar gegn stjórn Gaddafís. Þá eru þeir einnig sagðir hafa gert tilraunir til að dylja meinta glæpi sína.

Ráðamenn í Líbíu voru ekki lengi að hafna lögsögu Alþjóðadómstólsins. Þeir ásökuðu hann um að ráðast með ósanngjörnum hætti að Afríkubúum en skeyta engu um þá glæpi sem NATO fremji daglega í Afganistan, Írak og nú Líbíu.

Anders Fogh Rasmussen, aðalritari NATO, sagði ákvörðun dómstólsins endurspegla einangrun líbískra stjórnvalda. „Verkefni NATO í Líbíu er að vernda almenning í landinu fyrir hersveitum Gaddafís,“ sagði Rasmussen og bætti við að Gaddafí og hersveitir hans yrðu að átta sig á því að tími þeirra væri óðfluga að renna út.

Orrustuþotur á vegum NATO hafa síðustu 100 daga gert loftárásir á hernaðarskotmörk í Líbíu. Aðgerðunum hefur hins vegar ekki tekist að veikja stöðu Gaddafís sem leiðtoga landsins að ráði og hafa þær sætt sívaxandi gagnrýni á alþjóðlegum vettvangi á síðustu vikum.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×