Erlent

Í það minnsta 47 látist í Evrópu

Víða í Evrópu er sýkt grænmeti til rannsóknar en vísindamönnum hefur ekki tekist að greina orsakir faraldursins.Fréttablaðið/AP
Víða í Evrópu er sýkt grænmeti til rannsóknar en vísindamönnum hefur ekki tekist að greina orsakir faraldursins.Fréttablaðið/AP
Þrír hafa bæst í hóp látinna vegna kólígerlafaraldursins í Evrópu. Samtals hafa því í það minnsta 47 látist, að sögn þýskra yfirvalda. Einn Svíi hefur látist vegna faraldursins og 46 Þjóðverjar.

Nýjum smitum vegna faraldursins hefur fækkað mikið á síðustu vikum en alls hafa 3.801 einstaklingur veikst í Þýskalandi. Þar af eru 834 alvarlega veikir. Þá hafa 119 tilvik komið upp í 15 öðrum löndum en uppruni sýkingarinnar hefur verið rakinn til býlis í norðurhluta Þýskalands.

„Enn er ekki vitað hvernig sýkingin varð til,“ segir Nina Bansbach, talskona Neytendavarna- og mataröryggisstofnunar Þýskalands.

Svo virðist sem annar, ótengdur, kólígerlafaraldur sé farinn af stað í Frakklandi. Af átta tilvikum sem komið hafa upp þar í landi undanfarið er í einungis þremur tilfellum um sömu bakteríu að ræða.

„Rannsókn er hafin en fyrstu niðurstöður benda til þess að sýkinguna megi rekja til franskra spíra,“ sagði í tilkynningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, frá því í gær. „Verið er að kanna alla möguleika á því að rót sýkinganna sé sameiginleg en aðrar orsakir eru einnig til skoðunar,“ sagði í tilkynningunni.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×