Erlent

Sakfelldur og furðu lostinn

Rod Blagojevich reyndi, sem ríkisstjóri, að selja þingsæti Baracks Obama til hæstbjóðanda. Mynd/AP
Rod Blagojevich reyndi, sem ríkisstjóri, að selja þingsæti Baracks Obama til hæstbjóðanda. Mynd/AP
Rod Blagojevich, fyrrverandi ríkisstjóri í Illinois, var í gær sakfelldur af kviðdómi fyrir sautján af 20 ákæruatriðum í réttarhöldum, sem snerust um spillingarmál.

Blagojevich var meðal annars sakfelldur fyrir öll þau ákæru-atriði sem lutu að tilraunum hans til að selja þingsæti Illinois-ríkis í öldungadeild Bandaríkjanna, en sætið losnaði þegar Barack Obama varð forseti.

Blagojevich virtist furðu lostinn vegna niðurstöðu kviðdómsins. „Hvað gerðist?“ sagði hann og sneri sér að lögmanni sínum.Hann á yfir höfði sér allt að 300 ára fangelsisdóm samtals, en áður hafði hann hlotið fimm ára fangelsisdóm fyrir að hafa orðið uppvís að lygum.

Þetta eru önnur réttarhöldin yfir Blagojevich, en þau fyrri fóru þannig að kviðdómurinn komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu nema um eitt af ákæruatriðunum.

Blagojevich hefur nú í tvö og hálft ár farið mikinn í að reyna að sannfæra bandarísku þjóðina um sakleysi sitt.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×