Erlent

Hvetur kjósendur til dirfsku

Bachmann skýrði frá framboði sínu í hópi vina og stuðningsmanna í Iowa. Mynd/AP
Bachmann skýrði frá framboði sínu í hópi vina og stuðningsmanna í Iowa. Mynd/AP
Michele Bachmann stimplaði sig formlega inn í forkosningabaráttu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningar sem haldnar verða seint á næsta ári.

Bachmann hefur verið áberandi innan Teboðshreyfingarinnar svonefndu, sem gert hefur usla innan Repúblikanaflokksins með róttækum hægriskoðunum og uppátækjum sem hafa vakið athygli kjósenda en einnig furðu og gagnrýni.

Sjálf er hún þekkt fyrir að liggja ekki á skoðunum sínum og missa stundum út úr sér ummæli sem andstæðingar hennar nota sér síðan óspart og gera grín að.

Hún skýrði frá framboði sínu á mánudag í Waterloo, heimabæ sínum í Iowa. Samkvæmt skoðanakönnunum þykir hún eiga möguleika á því að verða forsetaefni repúblikana í Iowa, en óvíst er hvort hún á minnstu möguleika annars staðar í Bandaríkjunum.

„Við höfum ekki efni á því að hafa Obama fjögur ár í viðbót,“ sagði hún og uppskar fagnaðarlæti stuðningsmanna sinna. Sjálf sagðist hún vera góður valkostur fyrir Bandaríkjamenn sem þyrðu að taka djarfar ákvarðanir: „Kjósendur verða að taka djarfa ákvörðun ef við ætlum að tryggja fyrirheit framtíðarinnar.“- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×