Innlent

Ólafur sá sig knúinn til að svara ummælum Steingríms

Ólafur Ragnar Grímsson segist hafa séð sig knúinn til þess að svara ummælum fjármálaráðherra í Icesave málinu sem hann segir hafa verið aðför að ákvörðun forsetans. Hann muni ekki sitja undir því að ráðamenn fari fram af fyrra bragði með þessum hætti. Utanríkisráðherra segist hafa orðið hryggur við að heyra ummæli forsetans. Þau má sjá hér í heild sinni.

Ólafur Ragnar var í viðtali í þættinum Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni í gær þar sem hann fór meðal annars yfir ummæli sín um ríkisstjórnina og Icesave síðustu daga.

Sagði hann að deila mætti um það hvort forsetinn ætti að taka þátt í slíkri umræðu en hann hafi séð sig knúinn þegar fjármálaráðherra tjáði sig í byrjun september.

Rifjaði hann upp að þegar skilanefnd Landsbankans upplýsti um góðar endurheimtur í þrotabú bankans hefði Steingrímur komið með þá sögulegu túlkun að allt sem hann hefði sagt og gert í málinu hefði verið rétt. Hinsvegar hefði hann eytt alltof mikilli orku og tíma í málið, og hafði áhyggjur af því.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tjáði sig síðan um ummælin í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun og sagðist hann hafa orðið hryggur við að heyra forsetann ráðast í stórskotaliðsárás á fjármálaráðherra eins og hann orðaði það.

Hann hefði ekki getað heyrt betur en að þetta ætti rætur í einhver innanflokksátök í Alþýðubandalaginu fyrir þrjátíu árum. Það væri ekki hlutverk forsetans að standa í orðaskaki við stjórnmálamenn.

Össur upplýsti ennfremur að hann hefði reynt að ná tali af forsetanum í gærkvöldi, og vonaðist til að hitta hann í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×