Lífið

Risar á kvikmyndamarkaði slást um bók Steinars Braga

Bók Steinars Braga er ákaflega eftirsótt en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa sjö kvikmyndagerðarmenn sýnt henni áhuga. Meðal þeirra eru Sigurjón Sighvatsson, Snorri Þórisson hjá Pegasus, Sigurjón Kjartansson og ZikZak.
Bók Steinars Braga er ákaflega eftirsótt en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa sjö kvikmyndagerðarmenn sýnt henni áhuga. Meðal þeirra eru Sigurjón Sighvatsson, Snorri Þórisson hjá Pegasus, Sigurjón Kjartansson og ZikZak.
„Ég gæti ekki verið hamingjusamari," segir rithöfundurinn Steinar Bragi.

Nýjasta bók hans, Hálendið, hefur fengið afbragðsgóða dóma og prýðilegar viðtökur lesenda. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins hafa sjö aðilar lýst yfir áhuga á að kaupa kvikmyndaréttinn að bókinni. Meðal þeirra eru ZikZak, Pegasus, Sigurjón Kjartansson, Sæmundur Norðfjörð og Sigurjón Sighvatsson. Nafn Davids Lynch hefur einnig verið nefnt á nafn, en Sigurjón og Lynch eru miklir mátar. Hólmfríður Matthíasdóttir hjá Réttindaskrifstofu Forlagsins vildi sem minnst tjá sig um málið. „Ég get sagt að það séu sjö aðilar sem sýna verkinu áhuga og hafa verið að keppa um þessa bók. Þetta mál er bara ennþá í vinnslu og ég get ekkert sagt hvað það verða mörg tilboð. Það er mjög mikill áhugi en þetta er allt á mjög viðkvæmu stigi," segir Hólmfríður og bætir því við að hún hafi ekki áður upplifað jafn mikinn áhuga á sama tíma. „Þetta er í meira lagi."

Steinar Bragi sjálfur segir að draumaleikstjórinn til að gera kvikmynd eftir Hálendinu væri áðurnefndur Lynch. Skáldið hefur hins vegar báða fætur á jörðinni enda ekki í fyrsta skipti sem kvikmyndagerðarmenn sýna verki hans áhuga. ZikZak keypti kvikmyndaréttinn að verkinu Konur á sínum tíma. „Þannig að ég hef alveg lent í þessu áður," segir Steinar en kvikmyndarétturinn að þeirri bók hefur verið framlengdur um tvö ár. Steinar segir það jafnframt hafa komið sér óvart hversu hægur og hljóðlátur kvikmyndabransinn sé, allt virðist þurfa að fara mjög hljótt fram. „Það gerist allt miklu hægar en ég átti von á, ég hélt að þessi bransi væri keyrður áfram af miklu meiri hraða," segir Steinar.

Bókin Hálendið er mikill sálfræðitryllir af bestu gerð sem segir frá hjónum á jeppaferðalagi um hálendið. Þegar bíll þeirra ekur óvænt á hús tekur saga þeirra óvænta stefnu sem á eflaust eftir að skjóta mörgum skelk í bringu.freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.