Innlent

Telur samtalið skipta miklu máli

Höskuldur Þór Þórhallsson
Höskuldur Þór Þórhallsson

Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er ósammála því mati Oddnýjar G. Harðardóttur, formanns fjárlaganefndar, að samtal seðlabankastjóra Íslands og Bretlands haustið 2008 breyti engu um stöðu Icesave-málsins.

Fjárlaganefndarmönnum var sýnt afrit af samtalinu á mánudagskvöld.

„Ég tel að samtalið skipti miklu máli um afstöðu manna til málsins og hvort við eigum að láta reyna á hvort við eigum að borga skuldina yfir höfuð," segir Höskuldur.

Hann vill ekki upplýsa hvað seðlabankastjórunum fór á milli enda bundinn trúnaði. Höskuldur er hins vegar þeirrar skoðunar að aflétta beri trúnaðinum. „Ég og fleiri í stjórnarandstöðunni kröfðumst þess að trúnaði yrði aflétt af hluta samtalsins," segir hann. Mervyn King, seðlabankastjóri Bretlands, hefði lýst yfir að í samtalinu kæmu fram viðkvæmar bankaupplýsingar. Höskuldur telur þær upplýsingar þegar hafa verið opinberaðar en engu að síður sé sjálfsagt að trúnaði verði aðeins aflétt af þeim hluta samtalsins þar sem bankaupplýsingarnar komi ekki fram.

Höskuldur segir Má Guðmundsson seðlabankastjóra hafa sagt á fundinum á mánudag að ekki hefði verið farið fram á það við King að trúnaði yrði aflétt af hluta samtalsins. Eðlilegt sé hins vegar að það verði gert og að Már og seðlabankinn hlutist til um það.

Oddný Harðardóttir sagði í Fréttablaðinu í gær það sitt mat að samtalið breytti ekki stöðu Icesave-málsins. Hún sagði líka að fjárlaganefnd myndi ekki reyna að fá trúnaðinum aflétt. - bþs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×