Innlent

Vildu orku á 5 árum en ekki ræða verðið

Alcoa hafði ekki sótt um lóð fyrir álver á Bakka og fékkst ekki til viðræðna um mögulegt orkuverð. Forstjóri Landsvirkjunar segir mun betra að hafa fjölbreytta möguleika á kaupendum.
Alcoa hafði ekki sótt um lóð fyrir álver á Bakka og fékkst ekki til viðræðna um mögulegt orkuverð. Forstjóri Landsvirkjunar segir mun betra að hafa fjölbreytta möguleika á kaupendum.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að Alcoa hafi ekki fengist til viðræðna um orkuverð fyrir mögulegt álver á Bakka, þrátt fyrir óskir Landsvirkjunar þar um. Hann segir Alcoa hafa óskað eftir afhendingu orkunnar innan fimm ára. Landsvirkjun hafi hins vegar talið lengri afhendingarfrest nauðsynlegan, um tíu til tólf ár, þar sem jarðvarmavirkjanir þurfi að byggja upp í skrefum.

Hörður bendir á að það hafi tekið 35 ár að byggja upp 180 MW virkjanir á Reykjanesi og um 25 ár að byggja upp 400 MW svæði á Hellisheiði og Nesjavöllum. Þess vegna hefði mátt gagnrýna hugmyndir um að nýta 400 MW á tólf árum nyrðra. Fimm ár hefðu verið útilokuð.

Hörður segir að það að opna viðræður um orkuna fyrir fleiri aðilum hafi styrkt samningsstöðu Landsvirkjunar til muna. Alcoa hafi beitt alþekktri samningatækni, að koma sér í sterka samningsstöðu, sitja eitt við borðið og skapa væntingar áður en farið væri að semja um verð.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segir umhugsunarefni hvort Alcoa hafi spilað um meiri væntingar en efni stóðu til. „Eftir sex ár skyldi maður ætla og vona að menn væru komnir lengra en þetta, ef fullur hugur væri á verkefninu." Ráðherra benti á að fyrirtækið hefði ekki sótt um lóð undir álver, sem væri umhugsunarefni.

Tvö fyrirtæki hafa þegar sótt um lóðir undir starfsemi sína fyrir norðan. Umræður voru utandagskrár á Alþingi um stöðu mála nyrðra eftir að Alcoa tilkynnti að fyrirtækið væri hætt við álver á Bakka. Stjórnarandstæðingar gagnrýndu ríkisstjórnina harðlega, sögðu hana hafa staðið í vegi fyrir áformum fyrirtækisins.

Jón Gunnarsson málshefjandi, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði pólitísk fingraför ríkisstjórnarinnar vera uppi um alla veggi í málinu. Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, sakaði Vinstri græn um að hafa gert allt til að koma í veg fyrir málið.

Guðmundur Steingrímsson, þingmaður utan flokka, sagði Landsvirkjun hafa tekið þá skynsamlegu ákvörðun að selja þá orku sem eftir væri óvirkjuð í landinu á sem hæstu verði. Um takmarkaða auðlind væri að ræða. Hann sagði blasa við að Þingeyingar stæðu vel að vígi hvað orkusölu varðar.

kolbeinn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×