Innlent

Höfða mál vegna milljóna Ólafs F.

Ólafur F. Magnússon Var borgarstjóri þegar hann fór fram á að fá styrkinn greiddan inn á reikning eigin félags.Fréttablaðið/eyþór
Ólafur F. Magnússon Var borgarstjóri þegar hann fór fram á að fá styrkinn greiddan inn á reikning eigin félags.Fréttablaðið/eyþór
Frjálslyndi flokkurinn hefur höfðað mál á hendur Reykjavíkurborg til að freista þess að innheimta um 3,4 milljónir sem greiddar voru sem styrkur til borgarfulltrúans Ólafs F. Magnússonar.

Styrkurinn er lögbundinn og ber að greiða hann öllum þeim stjórnmálahreyfingum sem ná manni inn í borgarstjórn.

Ólafur náði kjöri árið 2006 sem fulltrúi F-lista frjálslyndra og óháðra. Fyrst um sinn rann hið árlega framlag, tæpar 3,4 milljónir til Frjálslynda flokksins en árið 2008 stofnaði Ólafur Borgarmálafélag F-listans og lét greiða framlagið inn á reikning þess. Það var skráð á heimili Ólafs.

Í stefnu Frjálslyndra á hendur borginni segir að ekki liggi fyrir hver tók ákvörðun um að greiða félagi Ólafs féð, hins vegar veki það athygli að þegar ákvörðunin var tekin hafi Ólafur verið borgarstjóri.

Fyrir liggi álit ráðuneytis sveitarstjórnarmála í þá veru að Frjálslyndi flokkurinn hafi átt heimtingu á fénu og borgin hafi lagt það til grundvallar ári síðar þegar flokkurinn fékk greiðsluna en ekki Borgarmálafélag Ólafs.

Frjálslyndir hafna þeim rökum borgarinnar að féð hafi verið greitt kjörnum fulltrúa þeirra og með því hafi greiðsluskyldunni verið sinnt. Borgin þurfi að bera ábyrgð á því að hafa greitt röngum aðila féð og skuldi þeim það því enn – óháð styrknum til Ólafs. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×