Erlent

Heimurinn er á barmi bankakreppu

Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins mynd/afp
„Við erum nú komin á nýtt og hættulegt stig,“ segir Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um þá erfiðleika sem steðja að þjóðum heims vegna skuldavanda einstakra ríkja.

Lagarde segir að til þess að hægt sé að stýra í gegn um vandann sem við blasi, vegna þess að sum ríki geti ekki staðið við skuldbindingar, þurfi sterkan pólitískan vilja á heimsvísu.

Fulltrúar ríkjanna sem eiga aðild að G20 hópnum svokallaða hittast í Washington í Bandaríkjunum á fimmtudaginn. Verkefnið þar er hindra að skuldakreppa tiltekinna ríkja leiði til allsherjar bankakreppu. Rætt er um að kreppan yrði verri en sú sem varð eftir fall Lehmans-bankans í Bandaríkjunum árið 2008.

Hluti vandans er hversu mikla fjármuni evrópskir bankar, sérstaklega franskir bankar, hafa bundið í skuldabréfum ríkja sem nú eru nálægt greiðslufalli. Tal þýskra embættismanna um greiðslufall Grikklands og að landið yfirgefi evrusamstarfið hefur leitt til þess að fjárfestar reyna nú að losa sig við grísk ríkisskuldabréf. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×