Lífið

Gnarr sýnd á Tribeca-hátíðinni

„Það er mjög gleðilegt að komast inn á svona stóra og flotta hátíð. Þetta verður ofsalega gaman," segir leikstjórinn Gaukur Úlfarsson.

Heimildarmynd hans, Gnarr, verður sýnd þrívegis á kvikmyndahátíðinni Tribeca í New York um páskana og verður frumsýningin á föstudaginn langa. Myndin fjallar um ævintýralega leið Besta flokksins í borgarstjórn með Jón Gnarr fremstan í flokki.

Gaukur, Jón, Heiða Kristín Helgadóttir, framkvæmdastjóri Besta flokksins, og framleiðendur myndarinnar verða viðstödd hátíðina og munu þau dvelja í fimm daga í Stóra eplinu.

Tribeca er ein stærsta kvikmyndahátíð heims og á hverju ári stendur valið á milli þúsunda heimildarmynda. Aðeins um fimmtíu eru valdar á hátíðina og er því um mikinn heiður að ræða fyrir Gauk og félaga. „Ef þú ert ekki að gera Hollywood-stórmynd er þetta leiðin til að fanga athyglina. Því betri sem hátíðin er, þeim mun meiri athygli fær myndin," segir hann.

Gaukur og Jón Gnarr munu sitja fyrir svörum á laugardaginn á uppákomu á vegum fyrirtækisins Apple, sem öllum er boðið á. Aðrir leikstjórar og leikarar sem sitja fyrir svörum síðar á hátíðinni eru Will Ferrell, Ed Burns og Eva Mendes.

Að Tribeca-hátíðinni lokinni verður Gnarr sýnd á stærstu heimildarmyndahátíð Norður-Ameríku, Short Docs, í Toronto í Kanda. Íslenska heimildarmyndin Feathered Cocaine, sem fjallar um fálkasmygl, var einmitt sýnd bæði á þeirri hátíð og á Tribeca rétt eins og Gnarr. Sú mynd vakti verulega athygli og hver veit nema Gnarr eigi eftir að njóta sömu hylli. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×