Innlent

120 íslenskar bækur þýddar á þýsku

120 íslenskir titlar koma út á þýsku á næstu mánuðum í tilefni af bókamessunni í Frankfurt en Ísland er þar heiðursgestur. Halldór segir töluna fara fram úr hans væntingum. Mynd/Anton
120 íslenskir titlar koma út á þýsku á næstu mánuðum í tilefni af bókamessunni í Frankfurt en Ísland er þar heiðursgestur. Halldór segir töluna fara fram úr hans væntingum. Mynd/Anton

„Við höfðum gert okkur vonir um að þetta yrðu kannski hundrað titlar þannig að þetta fer fram úr því sem við bjuggumst við,“ segir Halldór Guðmundsson, verkefnisstjóri Sögueyjunnar Íslands, sem heldur utan um heiðursgestahlutverk Íslands á bókamessunni í Frankfurt en hún verður formlega sett í október. 120 íslenskir titlar koma út á þýsku á næstu mánuðum og Halldór segist reikna með að verk yfir áttatíu höfunda verði aðgengileg á þýsku. „Þarna inni á milli eru safnrit, ljóða- og smásagnasöfn þannig að höfundarnir gætu verið miklu fleiri.“

Ísland verður áberandi á alls konar viðburðum í Þýskalandi sem tengjast skálda­gyðjunni með beinum og óbeinum hætti. Þannig verður í júní blásið til mikillar íslenskrar ljóðaveislu í ellefu þýskum borgum þar sem íslensk ljóðlist verður kynnt. Þá er ráðgert að bókasýning fari fram í Leipzig þar sem fimm íslenskir rithöfundar verða gestir. Punkturinn yfir i-ið er síðan sjálf bókamessan í október þar sem sjö þúsund sýnendur frá hundrað löndum mæta á svæðið með verk sín.

Halldór segist ekki vita hversu margir íslenskir rithöfundar séu búnir að bóka farseðil til Þýskalands en annar hver maður í Rithöfundasambandinu hljóti að minnsta kosti að vera velta þeim möguleika fyrir sér. „Við höfum verið að tala við öll forlögin sem gefa út íslenskar bækur og spyrja þau hvort þau vilji fá íslenska höfunda út til sín í frekari kynningar.“- fgg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×