Innlent

Kvótakerfinu breytt

Jónas Margeir Ingólfsson. skrifar
Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason. Mynd/Anton Brink
Í frumvarpi til nýrra laga um úthlutun aflaheimilda verða lagðar til víðtækar breytingar á fyrirkomulagi úthlutunar kvóta. Sjávarútvegsráðherra hyggst leggja frumvarpið fram í febrúarmánuði.

Samtök atvinnulífsins hafa lýst því yfir að ekki verði gengið til almennra samninga á vinnumarkaði nema að komist verði að niðurstöðu um framtíð sjávarútvegsins. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra fór hörðum orðum um þessa afstöðu samtakanna á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í gær

„Grímulaus valdaklíka LÍU skirrist ekki við að þvinga Samtök atvinnulífsins til að taka alla kjarasamninga í landinu í gíslingu til að tryggja áframhaldandi forræði þeirra á auðlindunum í sjónum," sagði Jóhanna.

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra hyggst nú flýta fyrir frumvarpi til nýrra laga um úthlutun veiðiheimilda. Samkvæmt heimildum fréttastofu felur frumvarpið í sér að kvótaeigendur semji við ríkið um hluta veiðiheimildanna en ákveðnum hluta þeirra verður ráðstafað af sjávarútvegsráðuneytinu með öðrum hætti. Heimildir fréttastofu herma að þeim hluta aflaheimilda verði úthlutað í sérstaka „kvótapotta“ sem teknir eru frá fyrir byggðir og nýliða.

Innan ráðuneytisins er gengið út frá því að samið verði við núverandi kvótaeigendur en óvíst er hvort samið verði um ákveðna aflahlutdeild eða annað fyrirkomulag en hlutdeild í afla. Almennt sé byggt á þeim sjónarmiðum sem fram komu í skýrslu starfshóps um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða.

Ekki náðist í Jón Bjarnason við vinnslu fréttarinnar en hann hyggst flytja frumvarpið í febrúarmánuði. Samkvæmt heimildum fréttastofu er frumvarpið ekki komið á blað en unnið er að því að semja það upp úr ýmsum minnisblöðum sem eru afrakstur margra funda um málið innan ráðuneytisins. Fundað er daglega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×