Á aðalfundi Landssambands kúabænda í dag var skorað á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að beita sér fyrir því að mögulegt verði að flytja inn holdnautasæði.
Sæðið yrði flutt frá viðurkenndum einangrunarstöðum í þeim nágrannalöndum okkar, þar sem heilbrigðisástand nautgripa er hvað best.
„Tilkoma þessara óska er aukning á skyldleikahnignun holdakynjanna, sem torveldar orðið notkun þeirra í nautakjötsframleiðslunni. Það er því orðið brýnna en nokkru sinni fyrr að erfðaefni hérlendra holdanautakynja, sérstaklega skoska kynsins Aberdeen Angus, verði endurnýjað svo fljótt sem verða má,“ segir á vef Landssambands kúabænda.
