Innlent

290 myndavélar vakta almenning í miðborg

Bryndís Björgvinsdóttir þjóðfræðingur segir að augljósum merkingum við öryggismyndavélar á almannarými sé verulega ábótavant, eftir að hafa gert úttekt á öllum myndavélum í miðbæ Reykjavíkur. fréttablaðið/anton
Bryndís Björgvinsdóttir þjóðfræðingur segir að augljósum merkingum við öryggismyndavélar á almannarými sé verulega ábótavant, eftir að hafa gert úttekt á öllum myndavélum í miðbæ Reykjavíkur. fréttablaðið/anton

Öryggismyndavélar í miðborg Reykjavíkur eru 290 talsins. Hvergi eru til opinberar tölur um fjölda og upplýsingar um staðsetningu eftirlits- og öryggismyndavéla sem beinast að öllu eða einhverju leyti að almenningsrými á Íslandi.

Öllum ábyrgðaraðilum er skylt með lögum að merkja vélarnar á augljósan hátt og þar á einnig að koma fram nafn ábyrgðaraðila. Slíkum merkingum er verulega ábótavant, að því er kemur fram í nýrri rannsókn á vegum Bryndísar Björgvinsdóttur þjóðfræðings og Valdimars Tr. Hafstein, dósents í þjóðfræði við Háskóla Íslands.

Rannsóknin hófst sumarið 2010 og var farið um miðbæ Reykjavíkur með GPS-tæki og myndavél þar sem allar sjáanlegar öryggismyndavélar voru skráðar. Aðeins var um að ræða vélar sem náðu að öllu eða einhverju leyti yfir almannasvæði, eins og gangstéttir, torg, port, innganga úti við, götur, opin bílastæði eða almenningsgarða.

Bryndís segir að augljósum merkingum sé verulega ábótavant og hvorki hún né aðrir aðilar sem tóku þátt í rannsókninni hafi fundið merkingar hjá öryggismyndavélum á vegum Alþingis á Austurvelli.

„Ef þær eru þar, þá eru þær ekki augljósar, eins og segir í lögum að þær eigi að vera,“ segir Bryndís. Hún segir þriðjung verslunareigenda á Laugaveginum nota myndavélarnar sem fælingarmátt, til að bæla niður óæskilega hegðun eins og veggjakrot og glæpi.

„Þetta vekur upp spurningar um hvað almannarými sé í raun,“ segir Bryndís. Hún segir þó alla verslunareigendur mjög ánægða með reynsluna af myndavélunum sem hafa í mörgum tilvikum hjálpað við að upplýsa þjófnaðarmál og skemmdarverk.

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir Alþingi einungis vakta þau svæði sem eru tengd starfsemi þingsins og þar sé öllum reglum fylgt.
„Það er nýverið búið að gera úttekt á þessum málum og það er allt samkvæmt lögum. Alþingi er í góðu samstarfi við lögregluna í þessum málum og við höfum farið eftir hennar ráðleggingum.“

Helgi fullyrðir að myndskeið úr vélunum hafi aldrei verið gerð opinber og séu einungis notuð í rannsóknum í samráði við lögreglu.  „Við vinnum ýmist í tíu eða tólf húsum og svo auðvitað fylgjumst við með umferð fyrir framan þinghúsið,“ segir hann. „Og það virðist hafa verin ærin ástæða til á síðustu misserum, eins og gefur að skilja.“

sunna@frettabladid.is
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.