Innlent

Þrettándabrennum víða frestað vegna veðurs

Þrettándabrennum hefur víða verið frestað og annars staðar hyggjast menn meta stöðuna þegar líða fer á daginn. Á höfuðborgarsvæðinu verður tekin ákvörðun síðar í dag um hvort hátíðarhöldin fara fram eður ei.

Vegna veðurs og slæms veðurútlits hefur þrettándabrennum verið frestað á Akranesi, í Borgarnesi, Grundarfirði, Ólafsvík, á Flateyri og í Bolungarvík. Þrettándabrennan við Húsabakka í Svarfaðardal fellur niður vegna veðurs. Og sömu sögu er að segja frá Siglufirði.

Brennu Þórs á Akureyri hefur verið aflýst vegna fjárskorts þetta árið. Þá hafa Húsvíkingar frestað sinni brennu til laugardags. Héraðsbúar ætla að sleppa brennunni en þrettándagleði Hattar verður færð inn í íþróttahús. Brennu á Eskifirði hefur verið frestað. Í Kópavogi hafa HK-ingar frestað sinni brennu í Fossvogsdal. Í Reykjanesbæ hefur hátíðarhöldum verið frestað fram á mánudag.

Ákveðið verður síðar í dag hvort flugeldasýning verður á Hólmavík og enn fremur hvort kveikt verði í þrettándabrennu á Siglufirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×