Innlent

Erfðamál Fischers endurflutt

Bobby Fischer.
Bobby Fischer.

Erfðamál meintrar ekkju skáksnillingssins Bobby Fischer, Miyoko Watai, gegn frændum Fischers, verður endurflutt í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þar sem of langt er liðið síðan málið var flutt í héraðsdómi. Ekki þykir sannað að Miyoko hafi sannarlega verið gift hinum sérvitra Fischer og því var dómsmál höfðað til þess að skera úr um hver eigi rétt á jarðneskum eigum Fischers.

Það er eftir talsverðu að slægjast því hann lætur eftir sig rúma 140 milljónir króna auk 67 fermetra íbúðar í Espigerði. Fjármunirnir sem Fischer lætur eftir sig er hluti af verðlaunafé sem hann fékk fyrir hið umdeilda skákeingvígi sem hann háði við Boris Spassky í Sveti Stefan og Belgrad árið 1992 og olli því að hann lenti upp á kant við bandarísk stjórnvöld, en þá var viðskiptabann á Serbíu.

Íbúðina í Espigerði keypti Fischer árið 2004 en Fischer lést í janúar 2008. Hann var jarðsettur í kirkjugarði á Suðurlandi en grafa þurfti líkamsleifar hans upp á síðasta ári til þess að skera úr um hvort lítil stúlka frá Filippseyjum væri dóttir hans. Í ljós kom að svo var ekki og því var kröfu hennar vísað sjálfkrafa frá dómi.

Málið hefur verið að velkjast um í dómskerfinu í að verða þrjú ár og því þarf að endurflytja málið í dag. Að sögn lögfræðinga sem Vísir ræddi við þá þykir það ekki óvanalegt að endurflytja mál í héraðsdómi, þó það sé ekki beinlínis algengt.

Þegar málflutningi er lokið má búast við úrskurði í mánuðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×