Innlent

Óviðeigandi að segja forsetaræfill

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir forseti Alþingis sagði við upphaf þingfundar klukkan þrjú í dag að ummæli Björns Vals Gíslasonar, þingmanns VG, um forseta Íslands frá því í morgun væru óviðeigandi. Björn Valur talaði um forsetaræfilinn í umræðu um forseta Íslands.

Ásta Ragnheiður sagði að hún hefði ekki tekið sérstaklega eftir ummælum Björns vegna anna í forsetastóli. Hún bað aðra þingmenn um að endurtaka ekki ummælin og að gæta orða sinna. Athygli vekur að hún vítti ekki Björn Val en í þingskaparlögum segir að forseti Alþingis skuli víta þingmenn ef þeir tala óvirðulega um forseta Íslands.

Björn Valur sagði í svari sínu til Vigdísar Hauksdóttir á þingfundi í morgun: „Ég er ekki að hnýta í forsetaræfilinn með neinum hætti eða beina orðum mínum til hans,"

78. grein þingskaparlaganna hljóðar svo: „Ef þingmaður talar óvirðulega um forseta Íslands eða ber þingið eða ráðherra eða einhvern þingmann brigslyrðum eða víkur með öllu frá umtalsefninu skal forseti kalla til hans: „Þetta er vítavert", og nefna þau ummæli sem hann vítir. Nú er þingmaður víttur tvisvar á sama fundi og má þá forseti, með samþykki fundarins, svipta þingmanninn málfrelsi á þeim fundi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×