Enski boltinn

Lampard mun aldrei ná sér að fullu af meiðslunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard, leikmaður Chelsea.
Frank Lampard, leikmaður Chelsea. Mynd/AP
Frank Lampard, leikmaður Chelsea, er aftur farinn að spila með liðinu eftir að hafa misst úr fjóra mánuði vegna meiðsla en segist þó að hann muni aldrei ná sér að fullu. Lampard skoraði tvö mörk í stórsigri Chelsea á Ipswich í bikarnum um síðustu helgi.

Lampard, sem er 32 ára gamall, átti aðeins að vera frá í nokkrar vikur vegna meiðslanna en þau reyndust síðan vera miklu alvarlegri þegar á hólminn var komið. Meiðslin voru síðan það slæm að hann mun aldrei vera alveg laus við þau það sem eftir lifir af hans fótboltaferli.

Læknar og sjúkraþjálfarar Chelsea þurfa því að fylgjast grannt með nára Lampard alveg eins og þeir þurfa að vakta ökkla Ashley Cole og lærvöðvavandamál John Terry.

„Ég þarf bara að vera duglegur að styrkja svæðið. Sinin losnaði af beininu og það er ekki hægt að laga það. Ég hef rætt við leikmenn sem hafa gengið í gegnum svona meiðsli og fékk góð ráð frá þeim," sagði Frank Lampard.

„Ég þarf bara að æfa aukalega tvisvar til þrisvar í viku til þess að stykja mig á þessu svæði. Þetta voru slæm meiðsli og ég finn alltaf fyrir þeim af og til," sagði Lampard.

„Ég verð betri með hverjum leik og ég er ákveðinn að eiga góðan seinni hluta á tímabilinu ekki síst þar sem ég missti nánast alveg af fyrri hlutanum," sagði Lampard.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×