Þingmaður Samfylkingarinnar, Sigmundur Ernir Rúnarsson, hefur óskað eftir fundi í iðnaðarnefnd vegna frétta síðustu daga um Metanólverksmiðju sem mögulegt er að rísi í Suður-Þingeyjarsýslu.
Í fundarborðinu kemur fram að Sigmundur vilji fund með nefndinni í ljósi þeirra stöðu sem blasi við í orkumálum Suður-Þingeyinga í ljósi þess að ekki verði til næg orka til þess að reisa bæði álver á Bakka og metanólverksmiðju.
„Við blasir að ráðstöfun umtalsverðrar raforku til verksmiðjunnar getur gert áform um iðnaðaruppbyggingu á Bakka að engu - og þar með kippt fótunum undan atvinnusókn Húsvíkinga á sínu heimasvæði," skrifar Sigmundur Ernir í fundarboði sínu.
Hann segir mikilvægt að þingmenn hafi allar nýjustu upplýsingar um stöðu málsins og er þess því farið á leit við formann iðnaðarnefndar að á fundinn mæti allir helstu hagsmunaaðilar málsins, þar á meðal fulltrúar Landsvirkjunar, Carbon Recycling, sveitarstjórnar Skútustaðahrepps, bæjarstjórnar Norðurþings og Byggðaráðs Norðurþings, sem í nýlegri ályktun hefur harmað að Landsvirkjun skyldi ekki upplýsa samstarfsaðila um þessar nýjustu vendingar, í orkunýtingu í Þingeyjarsýslum.